Mjög alvarlegt slys á Breiðholtsbraut

Mjög alvarlegt slys varð á Breiðholtsbraut á móts við hesthúsin við Víðidal er bifhjól keyrði aftan á bifreið. Við það féll hjólið og er maðurinn sem var á bifhjólinu alvarlega slasaður, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Annað bifhjól sem var með í för féll einnig í götuna en mennirnir höfðu ekki sinnt stöðvunarskyldu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Rauðavatn skömmu áður.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði lögreglan á Selfossi samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um kl. 12:20 um að þeir hefðu mælt tvö bifhjól á 178 km hraða á Hellisheiði. Eins og áður sagði reyndi lögreglan að stöðva för þeirra við Rauðavatn en þeir sinntu ekki stöðvunarskyldunni og héldu för sinni áfram upp Breiðholtsbrautina á ofsahraða.

Ekki er vitað nánar um meiðsl mannanna tveggja.

mbl.is