Arngrímur Ísberg: „Þetta ætlar að endast okkur"

„Þetta ætlar að endast okkur" sagði Arngrímur Ísberg, héraðsdómari þegar hann sté inn í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun þegar aðalmeðferð Baugsmálsins hófst í þeim liðum sem héraðsdómur vísaði frá með dómi sínum 3. maí síðastliðinn. Aðeins verjendur sakborninga voru viðstaddir.

Dómsþingið hófst á skýrslutöku yfir Ingibjörgu Stefánsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra Aðfanga, innflutningsfyrirtæki Baugs. Skýrslutakan var vegna ákæruliðar 19. sem varðar ákæru á hendur Tryggva Jónssyni um fjárdrátt. Skýrslutakan var stutt og snerist um reikning á garðsláttuvél sem flutt var inn til landsins af Aðföngum fyrir Tryggva.

Eftir skýrslutöku tók settur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, við að flytja mál sitt.

Sigurður Tómas sagði meðal annars að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi stundað sjálfsafgreiðsluviðskipti og hafi haft fulla vitneskju og vilja um lánveitingar af hálfu Baugs á tímabilinu 1998 til 2002. Hann sakaði Jón Ásgeir um að hafa notað Baug sem fjárfestingarbanka á þessu tímabili. „Nú er hann hins vegar búin að koma sér vel fyrir í banka og hlýtur að nýta sér það" bætti hann ennfremur við.

Eftir hádegið taka svo við verjendur sakborninga, þeir Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, Jakob Möller, verjandi Tryggva og Brynjar Nilsen, verjandi Jóns Geralds Sullenberger, og að lokum verða andsvör.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert