HR kemur best út í gæðum kennslu

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is

Háskólinn í Reykjavík hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem segir að HR komi best út af skólunum fjórum í gæðum kennslu, samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar á HR, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Þá segir að Laun og nýting menntunar (afdrif) eru nánast jafngóð hjá útskrifuðum nemendum HR og HÍ.

Akademísk staða var heldur betri í HÍ en HR, en það hefur breyst mikið frá því tímabili sem úttektin náði yfir (2003-2005). Þá kostar Háskólinn í Reykjavík meiru til hvers kennara og nemanda en til dæmis Háskóli Íslands (kostnaður og skilvirkni), segir í fréttatilkynningunni.

Haft er eftir Svöfu Grönfeldt, rektor HR, að háskólinn hafi „á örskömmum tíma sýnt hvaða árangri er hægt að ná með einkaframtaki á háskólastigi. Á fyrstu árum skólans var áhersla lögð á að byggja upp afburða kennslu og staðfestir þessi skýrsla góðan árangur þar. Frá því að úttektartímabili Ríkisendurskoðunar lauk, hefur umfang rannsókna í HR aukist verulega og mun næsta úttekt á háskólastarfi sýna árangur þess starfs. Sú ákvörðun stjórnvalda að leyfa samkeppni í kennslu á háskólastigi var rétt, og næsta skref er að auka samkeppni í rannsóknum, með eflingu samkeppnissjóða."

Eftirfarandi kemur fram í fréttatilkynningunni:

  1. Háskólinn í Reykjavík fagnar því að gerð sé úttekt á háskólakennslu á Íslandi, enda er vandað gæðamat mikilvægur þáttur í að byggja upp öflugt menntakerfi.
  2. Niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar sýna, svo ekki verður um villst, að Háskólinn í Reykjavík er í forystu háskólanna fjögurra þegar kemur að gæðum kennslu, notagildi námsefnis og ráðgjöf við nemendur. Um 80% nemenda í HR hefur jákvætt viðhorf til skólans en aðeins um 40% nemenda HÍ. Þá eru laun útskrifaðra nemenda og nýting menntunar álíka góð hjá HR og HÍ (HR 29,1 stig á móti HÍ 29,7 stig).
  3. Akademísk staða og gæði kennslu eru tveir aðskildir þættir. Akademísk staða er metin með fjölda birtra rannsóknagreina og hlutfalli kennara með doktorspróf en gefur ekki til kynna gæði kennslu. HR er með forystu í gæðum kennslu, en HÍ hafði nokkuð forskot á sviði rannsókna á þeim árum sem úttektin nær til.
  4. Skýrslan nær til áranna 2003 til 2005. Háskólinn í Reykjavík er ungur skóli og fræðasviðin sem skýrslan nær til voru á þessum tíma að stíga sín fyrstu skref. Lagadeild HR var stofnuð árið 2002 og úttektin hefst árið 2003. Í dag er árið 2007 og akademísk staða sumra háskólanna hefur gjörbreyst á þessum tíma.
  5. Ríkisendurskoðun leggur í skýrslunni mikla áherslu á kostnað vegna kennara og nemenda, og er það ýmist nefnt kostnaður eða skilvirkni í skýrslunni. Háskóli Íslands kemur eðlilega “best” út á þessum mælikvörðum, vegna þess að þar er launakostnaður almennt lægstur og kostnaður pr. nemanda einnig. Það er tæplega réttur mælikvarði á gæði kennslu að vera sem ódýrastur, enda kæmu fremstu háskólar heims ekki vel út úr slíkum samanburði.
  6. Það fjármagn sem háskólar afla sér til rannsókna frá samkeppnissjóðum (sjálfsaflafé) er mikilvægur mælikvarði á akademíska stöðu. Sjálfsaflafé var einn liður í stigagjöfinni í drögum sem skólar fengu til umsagnar í maí síðastliðnum. Ríkisendurskoðun tók þá ákvörðun að sleppa þessum mikilvæga mælikvarða úr endanlegu mati á akademískri stöðu, þvert á ráðleggingar erlendra sérfræðinga. Þar með breyttist röð skólanna í endanlegu mati.
mbl.is

Bloggað um fréttina