Reykvískar stúlkur syngja og hlaupa á Ítalíu

Stúlknakór Reykjavíkur hljóp kvennahlaup ÍSÍ á Ítalíu.
Stúlknakór Reykjavíkur hljóp kvennahlaup ÍSÍ á Ítalíu. mbl/Stella Ólafsdóttir

Stúlknakór Reykjavíkur söng íslenska og alþjóðlega helgisöngva í kirkju heilags Mikaels og Gaetano í Flórens í gærkvöldi. Húsfyllir var í kirkjunni og var kórnum og stjórnanda hans, Margréti Pálmadóttur, vel fagnað i lok tónleikanna. Í dag tóku stúlkurnar ásamt fylgdarkonum þátt í kvennahlaupi ÍSÍ á Ítalíu.

Kórinn hefur dvalið í Toscana á Ítalíu síðustu viku við æfingar og tónleikahald. Í Stúlknakór Reykjavíkur eru 45 stúlkur, þar af nokkrar stúlkur sem stunda söngnám í Söngskólanum Domus Vox. Nokkur fjöldi foreldra er með i för auk yngri systkina. Þá eru í hópnum nokkrar ömmur. Kórinn heldur aðra tónleika í dómkirkjunni í Massa á sunnudag.

Í dag tóku stúlkurnar og konurnar í hópnum, alls 75 talsins, þátt í kvennahlaupi ÍSÍ. Hlaupið var eftir strandgötunni í Marina di Massa og tekinn hringur um miðbæinn, um 2 km. leið. Til aðstoðar voru feðurnir í hópnum, sem mældu tímann, afhentu medalíur og veittu svaladrykki að hlaupi loknu. Vakti þessi kraftmikli hópur hlaupandi kvenna klæddar rauðum bolum verðskuldaða athygli vegfarenda.

Stúlknakór Reykjavíkur á tónleikum í Flórens.
Stúlknakór Reykjavíkur á tónleikum í Flórens. mbl/Stella Ólafsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina