Vandinn í sjávarútvegi eitt helsta úrlausnarefnið nú

Forsætisráðherra flutti hátíðarræðu á Austurvelli.
Forsætisráðherra flutti hátíðarræðu á Austurvelli. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í hátíðarræðu á Austurvelli að vandinn í sjávarútvegi sé eitt helsta úrlausnarefnið í íslensku þjóðlífi nú. En nýverið kynnti Hafrannsóknarstofnun skýrslu þar sem mælt er með því að skerða þorskaflann verulega á næsta fiskveiðiári. Geir sagði að kvótakerfið væri ekki fullkomið og það megi eflaust bæta á margan hátt. Hins vegar væru engar líkur á að annað kerfi fiskveiðistjórnunar hefði takmarkað veiðarnar meira en núgildandi kerfi. Þá væri þjóðin betur í stakk búin til að taka á sig áföll á sviði sjávarútvegs en oftast áður.

„Ég býst við að flestum hafi brugðið við mat og ráð vísindamannanna. Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg hagræðing í sjávarútvegi og afkoma fyrirtækja almennt batnað. Deilur rísa hins vegar reglulega um skipulag fiskveiða hér við land. Ég skal ekki gera lítið úr gagnrýni á kvótakerfið en menn mega heldur ekki gleyma kostum þess né líta fram hjá þeim miklu framförum sem orðið hafa í rekstri sjávarútvegsins undanfarna tvo áratugi. Vísindamennirnir segja að við höfum veitt of mikið úr sjónum. Samt sem áður er háværasta gagnrýnin á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að menn fái ekki að veiða meira og meira. Engar líkur eru á því að annað kerfi fiskveiða hefði takmarkað veiðarnar meira en það sem við búum við. En við skulum hins vegar ekki loka augunum fyrir því að kvótakerfið er ekki fullkomið fremur en önnur mannanna verk, og það má ugglaust bæta á margan hátt. Mörg byggðarlög á landsbyggðinni eiga í erfiðleikum og af þeim ástæðum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að huga skuli sérstaklega að áhrifum þess á þróun byggðar í landinu. Það er skylda ríkisvaldsins að koma þeim byggðarlögum til hjálpar þar sem grundvöllur atvinnustarfsemi og samfélags brestur, hvort sem það er í sjávarútvegi eða öðrum greinum.

Ríkisstjórnin stendur einhuga að baki sjávarútvegsráðherra í því að ákvörðun um kvóta næsta árs verði tekin að vandlega athuguðu máli, að fyrir liggi allar hliðar málsins áður en ákvörðun er tekin, ekki einvörðungu hin fiskifræðilega, að leitað verði samstöðu sem flestra um niðurstöðu og jafnframt litið sérstaklega til þeirra byggðarlaga sem verst standa. Hverjum manni er það ljóst að þjóðin er nú betur í stakk búin til að takast á við áföll á þessu sviði en oftast áður. Nú er meiri viðspyrna og við höfum betri efni á að líta til lengri tíma og taka á okkur byrðar sem létt gætu róðurinn síðar. Það eru hyggindi sem í hag koma," sagði Geir.

Fjárfesting í menntakerfinu sú besta sem völ er á
Forsætisráðherra sagði að mennt væri máttur og verkefnin mörg sem fram undan séu á því sviði. Sagði Geir að fjárfesting í menntakerfinu sé eflaust ein besta fjárfesting sem um getur þó svo arðurinn væri ekki greiddur út á hluthafafundi árlega. „Á því sviði höfum við ekki efni á að spara," sagði Geir.

Hann greindi frá því að fyrr í dag hafi hann gefið út skipunarbréf til nefndar til þess að undirbúa þjóðhátíðardaginn eftir fjögur ár en þá eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Að sögn Geirs verður Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi forseti Alþingis, formaður nefndarinnar.

Nefndinni er ætlað að gera fyrstu tillögur eigi síðar en í árslok 2008 en vinna síðan að undirbúningi hátíðarhalda á árinu 2011. Nefndin leiti enn fremur eftir tillögum frá stofnunum og samtökum sem tengjast minningu Jóns Sigurðssonar forseta.

Aðrir nefndarmenn eru Anna Agnarsdóttir, sagnfræðingur, Sigurður Pétursson, sagnfræðingur, Gunnlaugur Haraldsson, þjóðháttafræðingur, Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, Karl M. Kristjánsson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis og Eiríkur Finnur Greipsson, formaður Hrafnseyrarnefndar. Með nefndinni starfar Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.

Geir sagði einnig, að vel færi á því, að Alþingi ætti stað á Þingvöllum fyrir mikilvægustu fundi sína, bæði til að leggja áherslu á þýðingarmestu málin og til að viðhalda lifandi sögulegum tengslum.

Hátíðarræða forsætisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert