Meint hundsdráp kært til lögreglunnar á Akureyri

Lögreglunni á Akureyri hefur borist kæra þar sem að grunur leikur á að hundur hafi verið drepinn á Akureyri helgina 15-17 júní. Lögreglan staðfestir að málið sé til rannsóknar en sú rannsókn sé á frumstigi.

Í tölvupósti, sem gengið hefur á netinu, segir að tæplega ársgamall Chinese Crested hundur, Lúkas að nafni, hafi sloppið frá eiganda sínum á Akureyri í maílok. Síðan hafi sést til ungra drengja með hundinn umrædda helgi. Fullyrt er í póstinum að sést hafi til drengjanna setja hundinn í íþróttatösku og sparka töskunni á milli sín þar til hundurinn drapst.

Boðað er að haldin verði kertavaka á þremur stöðum á landinu klukkan 20 í kvöld Geirsnefi í Reykjavík, Lystigarðinum í Hveragerði og hjá Blómavali og Húsasmiðjunni á Akureyri til að vekja athygli á málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert