Rætt um fiskveiðistjórnun, kosti hennar og galla

Frá fundinum í Finnlandi. Einar og Sirkka-Liisa Anttila, landbúnaðarráðherra Finnlands
Frá fundinum í Finnlandi. Einar og Sirkka-Liisa Anttila, landbúnaðarráðherra Finnlands

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sótti í gær sumarfund matvælaráðherra Norðurlanda sem haldinn var í Björneborg (Pori) í Finnlandi. Á fundinum var m.a. rætt um alvarlegt ástand þorskstofnsins í Eystrasalti og þá fóru einnig fram almennar umræður um fiskveiðistjórnun, kosti hennar og galla. Sérstaklega var rætt um brottkast og þá ógn sem lífríki Eystrasalts stafar af mengun sjávar.

Í tilkynningu kemur fram að ráðherrarnir urðu sammála um að Norðurlöndin skuli beita sér ötullega í að bæta heilsu og lífsgæði íbúa þeirra með sérstakri áherslu á betra mataræði barna áður en í verulegt óefni verði komið. Bæði þurfi að stuðla að heilbrigðara lífernir með hollara mataræði og aukinni hreyfingu.

Rætt var um þróun byggðar, landbúnaðar og skógræktar. Talsverðar umræður urðu um byggðamál og þann vanda sem víða er uppi í sjávarútvegs- og landbúnaðarbyggðum Norðurlandanna. Hvernig unnt er að bregðast við t.d. með nýsköpun í atvinnulífi og hvert hlutverk stjórnvalda er á því sviði. Einar Kristinn fagnaði því starfi sem að þessu lýtur og fram hefur farið frá sumarfundinum á Akureyri 2004, sérstaklega með hliðsjón af yfirlýsingunni sem þar var samþykkt.

Fjallað var um vel heppnaða samvinnu Norðurlandanna um varðveislu erfðaauðlinda og samþykkt ný áætlun um heildarsamstarf á þessu sviði frá og með næstu áramótum.

mbl.is

Bloggað um fréttina