Sólveig Þorvaldsdóttir til neyðarstarfa í Pakistan

Frá flóðasvæðunum í Pakistan.
Frá flóðasvæðunum í Pakistan. Reuters

Sólveig Þorvaldsdóttir, jarðskjálftaverkfræðingur, hélt til Pakistan í dag til neyðarstarfa á vegum Rauða kross Íslands vegna flóða í suðurhluta landsins. Er Sólveig ein af níu manna neyðarteymi Alþjóðasambands Rauða krossins sem mun aðstoða pakistanska Rauða hálfmánann við neyðaraðstoðina.

Rauði krossinn segir, að gífurlegt úrfelli hafi verið á þessum slóðum frá því í síðustu viku og sé óttast að um 250 manns hafi farist í héraðinu Baluchistan og í hafnarborginni Karachi. Þá er talið, að allt að 250.000 manns í Baluchistan hafi misst heimili sín í flóðunum.

Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans hafa verið að störfum á hamfarasvæðunum frá því í síðustu viku. Vinna við að setja upp vatnshreinsibúnað er þegar hafin til að tryggja að íbúar á svæðinu hafi aðgang að ómenguðu vatni, og áætlað er að dreifing á matarpökkum til um 6000 fjölskyldna muni hefjast á næstu dögum.

Sólveig hefur starfað um árabil að neyðarvörnum hérlendis, og svo erlendis fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Þetta er í annað sinn sem hún starfar fyrir Rauða krossinn, en Sólveig vann við neyðaraðstoð á Filippseyjum um síðustu jól vegna mikilla flóða.

Sólveig mun stjórna dreifingu hjálpargagna og samhæfingu neyðaraðstoðar. Hún verður að störfum með neyðarteymi Rauða krossins í um það bil einn mánuð. Samkvæmt upplýsingum Rauða krossins þarf að koma sem fyrst hreinu drykkjarvatni, matvælum, teppum og segldúki til þeirra sem misst hafa allt sitt í hamförunum. Spáð hefur verið áframhaldandi úrfelli í Baluchistan síðarihluta þessarar viku svo ástandið þar gæti enn átt eftir að versna.

mbl.is

Bloggað um fréttina