Strípalingar handteknir í Mosfellsbæ

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt þrjá unga karlmenn sem voru á hlaupum í Mosfellsbæ klæddir skikkjum einum fata. Mennirnir voru ölvaðir og höfðu m.a. stolið reiðhjóli úr garði og fánum af bensínstöð.

Tilkynning barst lögreglu um kl. 3:30 í nótt. Lögreglan fór á staðinn og hafði hendur í hári mannanna, sem eru um 25 ára gamlir. Í ljós kom að skikkjur mannanna voru fánar sem þeir höfðu stolið af N1-bensínstöð í bænum. Annars voru mennirnir á Adams-klæðum og ölvaðir.

Búið er að yfirheyra mennina og hefur þeim verið sleppt. Þegar þeir voru beðnir um að gefa skýringu á athæfi sínu sögðu þeir að þá hefði ávallt langað til að hlaupa um naktir.

Mennirnir eiga yfir höfði sér kærur fyrir ýmiskonar brot, m.a. þjófnað, blygðunarsemisbrot og brot á lögreglusamþykkt Mosfellsbæjar fyrir athæfið.

Lögreglan hefur skilað reiðhjólinu til síns eiganda og sömuleiðis fánunum.

mbl.is