Neytendur kunna að eiga endurkröfurétt vegna FIT-kostnaðar

Talsmaður neytenda segir að neytendur kunni að eiga endurkröfurétt á bankanna vegna of hás FIT-kostnaðar, sem innheimtur er ef fólk fer yfir á reikningum sínum. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að bankarnir neiti að gefa upp hvað þeir innheimta mikið í FIT-gjöldum en framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja hefur sagt að FIT-kostnaðurinn sé viðurlög í samræmi við lög og því hærri en kostnaður bankans við innheimtuna.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sagði í fréttum Útvarpsins að ólíklegt sé að bankarnir geti réttlætt jafn háan FIT-kostnað og raun beri vitni. Hefur Gísli gert skoðun FIT-kostnaðar að forgangsverkefni og hyggst ræða það við fulltrúa bankanna á næstunni. Hann segir FIT-kostnaðinn verða að byggjast á skaðabótarétti og því megi gjaldið ekki vera hærra en sem nemur kostnaði bankans við innheimtuna.

Útvarpið sagði, að enginn stóru bankanna þriggja vildi gefa upp hverju FIT-kostnaðurinn skili þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert