Er sumarið búið?

Veðrið hefur verið fremur þungbúið á höfuðborgarsvæðinu sem og annarsstaðar á landinu að undanförnu og svo virðist sem að sumarblíðan sem stóð svo vikum skiptir í júní og júlí sé að baki. Því vaknar sú spurning: „Er sumarið búið?“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur er ekki á því að sumarið sé búið að syngja sitt síðasta. Hann segir enn talsvert í haustið og að menn muni finna fyrir því þegar það gerist. Hann bendir á að að þótt að talsvert sé farið að rökkva eftir að sólin sest þá sé enn talsverður hiti að næturlagi. Fólk sem hyggst fara í útilegur í ágúst þarf því ekki að örvænta og pakka saman útilegubúnaðinum.

Hann segir hinsvegar hvað útilegustemninguna varði þá sé hún kannski farin að breytast. Íslendingar fari fyrr úr fríum en áður auk þess sem skólarnir hefjist fyrr, þ.e. síðsumars í stað í byrjun september. Það auki á hausttilfinninguna hjá mörgum.

Einar segir að það sé útlit fyrir að það verði hæglætisveður á landinu fram að helgi. Fremur þungbúið á höfuðborgarsvæðinu fram til morguns. Um helgina snýst hinsvegar í norðaustanátt en þá þykknar upp við landið norðan- og austanvert. Það léttir hinsvegar til við landið sunnan- og vestanvert. Búast má við björtu veðri á sunnudag á höfuðborgarsvæðinu, en heldur kólnandi. „En það hefur ekkert með haustið að gera,“ bætir Einar við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert