Iðnaðarráðherra mælir með nýyrðinu aflþynna

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, bauð fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands ítalska hátæknifyrirtækið Becromal velkomið til Íslands.

„Sem iðnaðar- og orkuráðherra lýsi ég sérstaklega yfir ánægju með að verkefnið skuli vera komið á þetta stig. Nú er teningunum kastað og væntanlega verður ekki aftur snúið," sagði Össur við undirritun samnings milli Becromal og Landsvirkjunar í hádeginu um raforku til nýrrar verksmiðju á Akureyri.

„Við fögnum því hér í dag að Becromal og Landsvirkjun hafa náð samkomulagi um umfangsmikil raforkukaup til framleiðslu á rafhúðuðum álþynnum sem notaðar verða í rafþéttaiðnaði. Um þessa hágæða afurð liggur fyrir skemmtileg tillaga þess efnis að nota nýyrðið aflþynna í stað hins erlenda orðs capacitor.

Við fögnum því einnig að samningar hafa náðst milli Becromal og Akureyrarbæjar um lóð, aðstöðu og fjárfestingarkjör. Það er einnig ástæða til þess að ætla að samningar náist við Landsnet um að tryggja öryggi í orkuflutningum þegar kemur að stækkun fyrirhugaðrar aflþynnuverksmiðju," sagði Össur.

Sagði Össur að langt sé síðan Akureyrarbær leitaði með stuðningi Fjárfestingarstofu hófanna meðal erlendra fyrirtækja á þessu sviði orkufreks iðnaðar.

„Það hefur löngum verið áhugi á að finna leiðir til þess að innleiða hér úrvinnsluiðnað úr áli, sem gæfi okkur kost á að auka fjölbreytni áliðnaðar og skapa tugi nýrra hátæknistarfa á því sviði. Framleiðsla aflþynna er slíkur iðnaður, enda þótt ekki verði notast við íslenskt ál í fyrstu. Fyrsti hluti verksmiðjunnar mun skapa um 40 50 ný störf sem síðar mun fjölga enn frekar með nýjum áföngum. Ekki er ólíklegt að útflutningsverðmæti framleiðslunnar verði sambærilegt við það sem fiskvinnslufyrirtækin hér á Akureyri áorka í dag.

Með reynsluna af þessum viðræðum í huga lá beint við að kynna aðstæður á Íslandi fyrir Becromal, stærsta fyrirtæki á þessu sviði í Evrópu, sem er með starfsemi á Ítalíu, í Noregi, í Sviss og Bandaríkjunum. Nú, fjórum árum síðar, eru samningar í höfn og ástæða til að samfagna öllum sem staðið hafa að þessu máli," sagði iðnaðar- og orkumálaráðherra.

Árið 1998 var fyrst rætt við fyrirtæki frá Japan um aflþynnugerð, en Austur Asía er helsta markaðssvæði í heimi fyrir þessar afurðir vegna mikillar framleiðslu á rafeindatækjum. Þrjú stærstu fyrirtækin í Japan sýndu málinu áhuga og komu fulltrúar þeirra hingað til að kynna sér aðstæður en ekkert varð úr þegar á reyndi.

mbl.is

Bloggað um fréttina