Fjöldi slagsmála á höfuðborgarsvæðinu í nótt

Mjög erilssamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og brutust víða út slagsmál þar sem lögregla þurfti að skakka í leikinn. Sjö voru handteknir við íþróttamiðstöðina á Seltjarnarnesi þar sem Stuðmannadansleikur fór fram. Sex ungmenni undir 16 ára aldri voru flutt á lögreglustöð eftir unglingateiti í Dugguvogi í nótt en þar voru yfir eitt hundrað ungmenni komin saman á stað sem ekki hefur heimild til skemmtanahalds.

Lögregla var kölluð út að íþróttamiðstöðinni á Seltjarnarnesi vegna óláta á Stuðmannadansleik sem þar fór fram. Þegar lögregla kom á staðinn voru dyraverðir með þrjá í haldi en hópur fólks veittist að lögreglu þegar hún kom á staðinn. Einn gerði sig líklegan til að henda grjóti í lögreglu og þegar lögregluþjónn reyndi að ræða við manninn sló hann grjótinu í lögregluþjóninn. Eins og áður sagði voru sjö handteknir í kjölfarið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ölvaður maður handtekinn í Laufvangi í Hafnarfirði þar sem hann var að brjótast inn í hjólageymslu.

Um svipað leyti var komið að alblóðugum manni sem var á göngu við Bíldshöfða. Var hann fluttur á slysadeild en ekki liggur fyrir hvað gerðist þar sem maðurinn talar ekki íslensku. Verður rætt við hann í dag með aðstoð túlks en hann var fluttur á slysadeild.

Á þriðja tímanum var dyravörður við skemmtistað í Tryggvagötu laminn í andlitið með glasi af manni sem hann var að vísa út af staðnum. Var dyravörðurinn skorinn í andliti og árásarmaðurinn handtekinn af lögreglu.

Eldsvoði við Lyngháls

Mikil mildi var að ekki varð stórtjón á renniverkstæði við Lyngháls en lögreglumenn sem voru við eftirlitsstörf á svæðinu sáu reyk og mikinn eld koma út úr húsnæðinu. Kölluðu þeir slökkvilið á staðinn sem tókst að slökkva eldinn.

Einn gistir fangageymslu lögreglu eftir að hafa keyrt útaf á Reykjanesbrautinni við Vífilstaðaveg. Er ökumaðurinn grunaður um ölvun.

Í Lækjargötu stökk ölvaður maður sem ók um götuna á bifreið út úr bifreiðinni og réðst á vegfaranda með kylfu og sló hann.

Í Hlégarði í Mosfellsbæ var maður sleginn í höfuðið með flösku en þangað þurfti að kalla til fjölda lögreglumanna til að skakka leikinn vegna óláta á dansleik sem þar fór fram. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var enginn handtekinn á staðnum.

Á fjórða tímanum í nótt brutust út hópslagsmál við Dalshraun 1 í Hafnarfirði og þurfti að flytja einn á slysadeild. Við Bragagötu var einn handtekinn er hann var að brjótast inn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert