Lúðvík: Gleðst yfir að barnsfaðernismálinu fer að ljúka

Lúðvík Gizurarson segir í tilkynningu, sem hann hefur sent til fjölmiðla, að niðurstaðan sem hann fékk í dag úr mannerfðafræðilegri rannsókn og sýnir að 99,9% líkur eru á að Hermann Jónasson hafi verið faðir hans, hafi ekki komið á óvart. Segist Lúðvík gleðjast yfir því að að barnsfaðernismálinu sem hann höfðaði fyrir réttum þremur árum, fari nú að ljúka.

Yfirlýsing Lúðvíks er eftirfarandi:

  Í dag fékk ég í hendur niðurstöðu mannerfðafræðilegrar rannsóknar á lífsýnum úr móður minni, Hermanni Jónassyni og blóðsýni úr mér. Samkvæmt niðurstöðunni eru 99,9% líkur á því að Hermann Jónasson hafi verið faðir minn. Eftir þessari niðurstöðu hef ég beðið lengi en leiðin að henni hefur verið bæði torsótt og grýtt.

  Niðurstaðan kom mér hins vegar ekki á óvart. Hún var staðfesting þess sem móðir mín sagði mér alla tíð um faðerni mitt, alveg frá því að ég man fyrst eftir mér.

  Samkvæmt 1. gr. barnalaga á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína. Ákvæðið byggir á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Ég hef frá því að ég hóf þennan málarekstur litið svo á að það væru mannréttindi mín og barna minna að vita sannleikann um faðerni mitt, jafnvel þótt ég hafi kosið að hefjast ekki handa í þeirri leit fyrr en á gamals aldri. Enda eru engir málshöfðunarfrestir í málum af þessu tagi í barnalögum.

  Ég gleðst yfir því að barnsfaðernismálinu sem ég höfðaði fyrir réttum þremur árum, til að fá það dæmt að Hermann Jónasson væri faðir minn, fer nú að ljúka. Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa stutt mig í þessum málarekstri.

  Reykjavík, 28. ágúst 2007
  Lúðvík Gizurarson hrl.

mbl.is