Losunarheimildir verða ókeypis

Eftir Hlyn Orra Stefánsson - hlynur@bladid.net

Ekki verður tekið gjald fyrir heimildir til losunar koltvísýrings hér á landi, þrátt fyrir að ljóst sé orðið að mun meiri eftirspurn sé eftir heimildunum heldur en framboð. Þar til gerð nefnd úthlutar heimildunum í næsta mánuði, en þegar hefur verið sótt um heimild til að losa 14.112 þúsund tonn af koltvísýringi til ársins 2012, en samkvæmt Kyoto-bókuninni hafa íslensk stjórnvöld einungis til úthlutunar 10.500 þúsund tonn á tímabilinu.

Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, segir ríkisstjórn mega samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins selja 10 prósent losunarheimildanna, restin skuli vera gjaldfrjáls. Tilskipun þessi fellur þó ekki undir EES og er því ekki farin að taka gildi hér á landi.

„Ég tel að í framtíðinni eigi að fara þá leið að láta greiða fyrir losunarheimildir," segir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. „Hins vegar eru hendur okkar bundnar af Evróputilskipun um þessi mál, þótt hún sé að vísu ekki tekin gild hér á landi. Þessi mál eru í þróun í Evrópu og við munum að öllum líkindum hegða okkur eins og ríki Evrópusambandsins í þessum efnum."

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra tekur undir með iðnaðarráðherra. „Mín skoðun er sú að fyrir afnotarétt af takmörkuðum auðlindum sem skilgreindar eru sem sameiginleg eign skuli almennt greiða afnotagjöld fyrir."

Nánar í Blaðinu

mbl.is