Hlutafélagavæðing OR rædd á stjórnarfundi í dag

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Fjallað verður um tillögu um hlutafélagavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur á stjórnarfundi eftir hádegi í dag, samkvæmt upplýsingum frá Degi B. Eggertssyni, fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn OR, og Svandísi Svavarsdóttur, fulltrúa VG. Segja þau að stjórnarformaður OR hafi hafnað beiðni þeirra um að afgreiðslu málsins yrði frestað.

Í tilkynningu frá Degi og Svandísi kemur fram að engin umræða um þessa hugmynd hafi farið fram og málinu var ekki hreyft á nýafstöðnum aðalfundi.

„Tveir aðalmenn í stjórn Orkuveitunnar, Dagur B. Eggertsson og Svandís Svavarsdóttir eru stödd á stjórnarfundi Sambandsins íslenskra sveitarfélaga á Ísafirði. Hvorugt þeirra fékk send fundargögn vegna málsins.

Nú laust fyrir hádegið hafnaði stjórnarformaður Orkuveitunnar rökstuddri ósk um að fresta afgreiðslu málsins. Þetta er fordæmislaust og freklegt brot gegn eðlilegum vinnubrögðum í stjórn fyrirtækisins. Þessu mótmæla undirritaðir stjórnarmenn harðlega," að því er segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni og Svandísi Svavarsdóttur.

Segja þau að sérstaka athygli veki að rökstuðningur tillögunnar er með vísan til þess að „tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja".

„Einkavæðing Orkuveitunnar væri þvert á margítrekaðar yfirlýsingar borgarstjóra og meirihlutans í Reykjavík. Offorsið sem einkennir hins vegar ofangreinda málsmeðferð hlýtur hins vegar að vekja fjölmargar spurningar og tortryggni um að einkavæða eigi Orkuveituna á hlaupum. Þetta er stórmál sem þarfnast víðtækrar samfélagslegrar umræðu. Samfylkingin og VG munu óska eftir því að rekstrarform Orkuveitunnar verði sett á dagskrá borgarstjórnarfundar á þriðjudaginn í næstu viku," samkvæmt tilkynningu frá Degi og Svandísi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert