Rannsóknarleyfi gefið út á grundvelli laga

Landsvirkjun hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem harmað er að Landvernd og Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi skuli senda þingnefndum og fjölmiðlum bréf og biðja um opinbera rannsókn á útgáfu rannsóknarleyfis á Gjástykkissvæðinu án þess að kynna sér málavexti. Ljóst sé að rannsóknarleyfið er gefið út á grundvelli laga og lögboðinna umsagna.

Í yfirlýsingunni segir, að Landsvirkjun hafi sótt um rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu í október 2004 í samræmi við lög og þá hafi verið þegar leitað umsagna umsagnaraðila, sem sendu þær til iðnaðarráðuneytisins. Afgreiðsla málsins tafðist um hríð vegna leyfisumsókna annarra aðila. Þegar samið hafði verið við landeigendur hafi leyfisbeiðni verið ítrekuð í september 2006, en þá lágu fyrir jákvæðar umsagnir allra umsagnaraðila.

Landsvirkjun segir, að þá hafi málinu verið slegið á frest vegna fyrirhugaðra lagabreytinga, sem ekki náðu fram að ganga á vorþinginu 2007. Þá hafi Landsvirkjun ítrekað umsókn sína með bréfi hinn 8. maí og iðnaðarráðherra veitti leyfið hinn 10. maí, tveimur og hálfu ári eftir að óskað var eftir leyfinu enda hafi öllum lagaskilyrðum verið fullnægt.

mbl.is

Bloggað um fréttina