Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra tilkynnti við setningu Bókmenntahátíðar í Norræna húsinu í dag að íslenska ríkisstjórnin hefði ákveðið að þiggja boð bókasýningarinnar í Frankfurt um að vera ein af þeim þjóðum sem keppa að því að vera gestaþjóð á sýningunni árið 2011. Það þykir töluverður heiður að vera valin gestaþjóð en því fylgir einnig gríðarleg landkynning og líklegt er að það geti orðið mikil lyftistöng fyrir íslenska höfunda.
„Það mun væntanlega skýrast á næstu dögum hvort þau áform gangi eftir. Ef sú verður raunin mun Ísland verða fyrst Norðurlandanna til að takast á við þetta mikla verkefni. Hér væri um að ræða einstakt tækifæri fyrir Ísland fyrir að kynna sögu okkar og sjálfsmynd, menningu og bókmenntir fyrir árvökulum augum umheimsins,“ sagði Þorgerður Katrín við setningu Bókmenntahátíðar í dag.
Bókasýningin eða bókamessan eins og hún er jafnan kölluð er sú stærsta í heimi og jafnframt sú mikilvægasta fyrir bókaútgáfuna. Gestaþjóðir undirbúa sig yfirleitt í mörg ár áður en þær baða sig í sviðsljósinu sem fylgir því að vera gestaþjóð.
Mikill kostnaður
Það fylgir því mikill kostnaður að þiggja boð sem þetta, allt að 300 milljónum króna en þeir sem þekkja til í útgáfubransanum segja að það skili sér margfalt tilbaka.
Þýskir fjölmiðlar fjalla yfirleitt mikið um gestaþjóð bókasýningarinnar hverju sinni og að öllum líkindum yrðu gefnar út fjölmargar þýðingar á nýjum íslenskum skáldverkum sem og eldri ritum.
Þýska málsvæðið telur um 100 milljónir manna og því er eftir miklu að slæðast.
Á bókasýninguna koma einnig útgefendur frá flestum þjóðlöndum heims og sú aukakynning sem það að vera gestaþjóð sýningarinnar er mikils virði.
Eins og Ólympíuleikarnir
Gestaþjóðir þurfa að halda vel utan um kynningarmál og skipulag og koma sér upp fjölda bása í sérstökum sýningarsal sem er um það bil þrisvar sinnum stærri en Laugardalshöllin. Að sögn þeirra sem þekkja til er það ákaflega eftirsótt að fá að vera gestaþjóð á Frankfurtarsýningunni og langir biðlistar landa sem vilja koma sér á framfæri, það má líkja þessu við kapphlaupið um að fá að halda Ólympíuleikana.
Finnar hafa sýnt mikinn áhuga á að vera gestaþjóðin 2011 en stjórnendur sýningarinnar munu tilkynna síðar í þessari viku hvaða þjóð hreppir hnossið það árið.