Stuðningur við ESB-aðild eykst

Um 48% Íslendinga segjast hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu en 33% eru andvígir. Þetta kemur fram í könnun Capacent fyrir Samtök iðnaðarins. Í samskonar könnun sem gerð var í febrúar voru 43% aðspurðra hlynnt aðild en 34% andvíg. Óákveðnum hefur fækkað milli kannana.

Capacent Gallup gerir reglulega kannanir fyrir Samtök iðnaðarins um viðhorf landsmanna til Evrópumála. Sú síðasta í röðinni var gerð dagana 15. til 27. ágúst.

Í könnuninni var einnig spurt hvort viðkomandi væru andvígir eða hlynntir því að taka upp aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sögðust 58,6% vera hlynntir því en 26,4% voru andvígir.

Fram kemur á vefsvæði Samtaka iðnaðarins, að meirihluti sé fyrir því meðal stuðningsmanna fjögurra stærstu stjórnmálaflokkanna, að taka upp aðildarviðræður við ESB. Þannig séu 63% stuðningsmanna Framsóknarflokksins hlynnt viðræðum en 28% andvíg. 50% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins séu hlynnt viðræðum en 33% andvíg. 80% stuðningsmanna Samfylkingarinnar séu hlynnt ESB-viðræðum en 11% andvíg og 52% stuðningsmanna Vinstri grænna vilji viðræður en 36% séu andvíg.

Könnunin var gerð 15. til 27. ágúst. Úrtakið var 1350 manns á öllu landinu á aldrinum 16-75 ára en svarhlutfall var 62%.

Könnunin í heild

mbl.is