Sigríður Lillý Baldursdóttir nýr forstjóri TR

Sigríður Lillý Baldursdóttir.
Sigríður Lillý Baldursdóttir. mbl.is/Jim Smart

Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, lætur af störfum 1. nóvember og tekur Sigríður Lillý Baldursdóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Tryggingastofnunar, við starfinu.

Karl Steinar hefur verið forstjóri Tryggingastofnunar í 14 ár eða frá 1. október 1993. Hann hugðist láta af störfum vegna aldurs nú á haustdögum en það varð að samkomulag að starfslok hans yrðu 1. nóvember, að því er kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Sigríður Lillý Baldursdóttir hefur starfað sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Tryggingastofnunar undanfarin ár. 1996-2001 var hún skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, verkefnisstjóri í utanríkisráðuneytinu árin 1994-1996 en fram til þess tíma var hún lektor við Tækniskóla Íslands og stundakennari við Háskóla Íslands. Hún sat í Tryggingaráði frá 1987-1995. Sigríður Lillý er eðlisfræðingur að mennt og hefur stundað rannsóknir í endurhæfingarverkfræði.

mbl.is

Bloggað um fréttina