Mest ánægja með störf Jóhönnu og Geirs

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Mest ánægja er með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup en ríflega 70% þjóðarinnar eru ánægð með störf hennar. Tæplega 70% landsmanna eru ánægð með störf Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, og er það um 14 prósenta aukning frá því í fyrra þegar ánægja með störf ráðherra var síðast mæld.

Tæplega 66% eru ánægð með störf Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra. Fram kemur í Þjóðarpúlsi, að ánægja með störf allra ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur aukist frá því í fyrra, að undanskildum Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra en 34% segjast ánægð með störf hans. Ánægja með störf ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur aukist mest á meðal fylgismanna Samfylkingarinnar. Mest er þó ánægjan með störf ráðherra Sjálfstæðisflokksins hjá kjósendum flokksins, en minnst hjá fylgismönnum Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór Þórðarson er nú mældur í fyrsta sinn og eru rúm 54% landsmanna eru ánægð með störf hans í stóli heilbrigðisráðherra. Rúmlega 34% þjóðarinnar eru ánægð með störf Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem er 1 prósentu aukning frá því í síðustu mælingu. Ánægja með störf Árna eykst meðal kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en dvínar hjá sjálfstæðis- og framsóknarfólki. Minnst ánægja er sem fyrr með störf Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra en tæplega 30% þjóðarinnar eru ánægð með störf hans. Björn er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er með hærra hlutfall óánægðra en ánægðra.

Ánægja með störf annarra ráðherra Samfylkingarinnar en Jóhönnu mælist nokkuð svipuð, eða á bilinu 41-43%. Tæplega 43% landsmanna eru ánægð með störf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, og Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, en aftur á móti er rúmur fjórðungur óánægður með störf Ingibjargar.

Tæp 42% þjóðarinnar eru ánægð með störf Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, Kristjáns L. Möller, samgönguráðherra og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra. Þórunn er eini ráðherrann sem flestir segjast hvorki vera ánægðir né óánægðir með, þó hlutfall óákveðinna sé nokkuð hátt hjá fleiri ráðherrum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert