Dorrit segir frétt DV móðgandi og særandi

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar í DV í dag um að Dorrit hafi borgað verðlaun sem Louise T. Blouin stofnunin veitti Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fyrir framlag hans til umhverfismála. Segir Dorrit í yfirlýsingunni, að fréttin sé röng og í senn móðgandi og særandi.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Það særir mig að DV skuli birta ranga frétt um að ég hafi „borgað verðlaun“ sem Louise T Blouin stofnunin veitti eiginmanni mínum fyrir framlag hans til umhverfismála við hátíðlega athöfn í New York. Einu tengsl mín við Louise T Blouin stofnunina eru að ég bauð í nútímalistaverk á uppboði sem haldið var snemma árs 2006 í tilefni af opnun listasafns stofnunarinnar í Lundúnum. Að auki hef ég veitt fulltrúa fjölmiðlafyrirtækis, sem tengt er Louise T Blouin og gefur út um 200 áhrifarík tímarit um listir, upplýsingar um ungt, íslenskt myndlistarfólk. Þetta er ástæða þess að í þakkarskrá stofnunarinnar fyrir árið 2006 er ég nefnd meðal stuðningsaðila (e. supporters). Þessar staðreyndir munu fulltrúar Louise T Blouin stofnunarinnar staðfesta.

    Að gera því skóna að eiginmaður minn hafi hlotið þessi verðlaun vegna þess að ég hafi borgað fyrir þau er í senn móðgandi og særandi.

    Dorrit Moussaieff

mbl.is