Dagur boðar til blaðamannafundar við Ráðhúsið

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi.
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi. mbl.is/Kristinn

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur boðað til blaðamannafundar á Ráðhússtéttinni við Iðnó klukkan 16:30. Ekkert fundarefni er tilgreint en samkvæmt heimildum mbl.is er búið að mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn og að honum standa Samfylking, Vinstri grænir, Framsóknarflokkur og F-listi.

Verður Dagur borgarstjóri og Björn Ingi Hrafnsson verður áfram formaður borgarráðs. Þá er gert ráð fyrir því að Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG, verði formaður sameiginlegs borgarstjórnarflokks nýs meirihluta og staðgengill borgarstjóra og Margrét Sverrisdóttir, borgarfulltrúi F-lista og óháðra, verði forseti borgarstjórnar.

Samsstarfsslit meirihlutans í borgarstjórn má einkum rekja til máls Reykjavik Energy Invest, sem mjög hefur verið til umræðu að undanförnu. Á aukafundi í borgarstjórn Reykjavíkur í gær sagði Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks og formaður borgarráðs m.a., að það væri nýtt fyrir sér, þegar allt í einu væri farið að ræða um, að þetta stríddi gegn stefnumálum tiltekinna stjórnmálaflokka að opinberir aðilar taki þátt í verkefnum með einkaaðilum til að styðja við útrásarverkefni. Vísaði Björn Ingi til Sjálfstæðisflokksins, sem ákvað á fundi á mánudag að stefna að því að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavik Energy Invest.

Björn Ingi lýsti andstöðu við að allur hluturinn verði seldur og sömu afstöðu hafa fulltrúar Samfylkingar, VG og F-lista lýst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert