Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Stjórnarformaður REI, Bjarni Ármannsson og stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Haukur Leósson afhentu og kynntu fyrir borgarstjóra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, minnisblað þar sem meðal annars kom fram að OR myndi beina öllum verkefnum erlendis til REI og að samningurinn sé til 20 ára, á löngum fundi á heimili borgarstjóra þann 23. september sl. Borgarstjóri lýsti sig samþykkan áformum um sameiningu REI og Geysi Green Energy á þeim forsendum sem í minnisblaðinu greinir. Þetta kemur fram í minnispunktum Bjarna Ármannssonar sem fylgja greinargerð frá honum, Hauki Leóssyni og Hjörleifi Kvaran, forstjóra OR.

Í minnispunktum Bjarna kemur jafnframt fram að REI muni auka hlutafé um 19 milljarða með því að OR leggur inn núverandi hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja, 9 milljarða króna og FL Group kaupi hlutabréf í REI fyrir 9 milljarða króna í peningum og Bjarni fyrir einn milljarð króna. Eftir þau viðskipti á OR 68,2%. Jafnframt gera félögin með sér hluthafasamkomulag og ákveða að sameina REI og GGE í eitt félag sem nefnist REI. Glitnir selur 0,8% í sameinuðu félagi.

Á stjórnarfundi í REI þann 11. september 2007 er Bjarni Ármannsson kjörinn formaður stjórnar REI. Samþykkt er á fundinum að bjóða OR að auka hlut sinn í félaginu um kr. 2.600.000.000 á genginu 1,0, sem greitt verði fyrir 1. febrúar 2008. Fallist OR á það er forstjóra REI falið að ganga frá hlutafjárhækkuninni.

Lagt var fram samkomulag milli OR og Bjarna Ármannssonar dags. 11. september 2007 og hluthafasamningur milli Sjávarsýnar ehf. og OR. Stjórn REI samþykkir að beita heimild sinni til hækkunar hlutafjár í félaginu um kr. 391.244.870- til að mæta skuldbindingum þeim sem fram koma í framangreindum gögnum. Bjarni vék af fundi við afgreiðslu þessa máls. Bjarni keypti á genginu 1,278.

17. september 2007 – Úr fundargerð stjórnar REI Ákveðið að reyna að fá Jón Diðrik Jónsson sem ráðgjafa til félagsins um málefni er lúta að stefnumótun, skipulagi o.fl. Stjórnarformanni heimilað að ganga frá samningi við hann. JDJ verði heimilt að kaupa hluti í REI f að kaupverði 30 mkr. á sama gengi og stjórnarformaður keypti hlutabréf á fyrr í mánuðinum. Jafnframt var samþykkt að auka hlutafé félagsins til að mæta þessu.

20. september 2007 – Haldinn fundur stjórnar og forstjóra REI, Hauks Leóssonar, Birni Inga Hrafnssonar, Bjarna Ármannssonar og Guðmundar Þóroddssonar með fulltrúum Geysir Green Energy og FL-Group (Hannesi Smárasyni og Jóni Ásgeiri Jónssyni. Ákveðið var í framhaldi af fundinum að láta á það reyna hvort sameina eigi fyrirtækin.

22. september 2007 – Stjórnarformaður REI (Bjarni Ármannsson) átti fund með stjórnarformanni GGE (Hannesi Smárasyni og lagður grunnur að þáttum er varðað geti sameiningu félaganna, verðmætamati hvors um sig og hlutafjáraukningu. Stjórnarformaður REI semur minnisblað í framhaldi af fundinum.

Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest eftir blaðamannafund þar …
Forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest eftir blaðamannafund þar sem samruninn var kynntur. Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert