Stöð 2 leitar réttar síns

24 Stundir

"Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og munum leita réttar okkar," segir Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, um þá staðreynd að sjónvarpsþættirnir Næturvaktin og Tekinn, sem sýndir eru á Stöð 2, séu aðgengilegir á vefsíðunni Torrent.is. Pálmi segist hafa farið fram á það við stjórnendur vefsíðunnar að vísanir í efni Stöðvar 2 yrði tekið út, en þeir hafi ekki orðið við þeirri ósk.

Svavar Lúthersson, framkvæmdastjóri Istorrent ehf., sagði í viðtali við 24 stundir í síðustu viku að hann hefði meðal annars boðið Samtökum myndrétthafa á Íslandi að tilkynna sér um ólöglega dreifingu á síðunni. Hann sagðist bregðast skjótt við ef eigendur höfundarréttar efnis sem miðlað er í gegnum síðuna færu fram á að komið yrði í veg fyrir aðgang að því.

Nýútkomin breiðskífa Sprengjuhallarinnar er einnig í boði á Torrent.is. "Þarna fer fram síendurtekið brot á rétti allra rétthafa, hvort sem þeir eru höfundar, flytjendur eða útgefendur," segir Eiður Arnarsson, útgáfustjóri íslenskrar tónlistar hjá Senu. "Þarna er fyrst og fremst verið að sýsla með höfundarréttarvarið efni."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert