Vilhjálmur: Borgarstjórn styðji málssókn Svandísar

Á fyrsta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur eftir myndun nýs meirihluta, er fram fór í dag, þakkaði nýkjörinn borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, forvera sínum, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fyrir unnin störf og sagði hann hafa verið að mörgu leyti góðan borgarstjóra. Að fundinum loknum tók Dagur við lyklavöldum á skrifstofu borgarstjóra.

Björn Ingi Hrafnsson flutti Vilhjálmi einnig þakkir fyrir gott samstarf og persónulega vináttu. Einnig þakkaði Björn Ingi félögum sínum í fyrrverandi meirihluta fyrir frábært samstarf, sem hann sagði hafa verið að flestu leyti gott.

Eftir að gengið hafði verið frá kjöri í embætti og ráð kvaddi Vilhjálmur sér hljóðs og ræddi stefnumál nýs meirihluta. Hann lagði ennfremur til, fyrir hönd borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, að borgarstjórn myndi taka undir bókun Svandísar Svavarsdóttur á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur í byrjun október um lögmæti eigendafundarins og þá ákvörðun sem á honum var tekin um samning um aðgang að tækniþjónustu. Lagði Vilhjálmur einnig til, að borgarstjórn samþykki að styðja málsókn sem Svandís höfðað um lögmæti fundarins.

Dagur brást við og sagði það útaf fyrir sig merkilegt, ef eftir allt sem á undan væri gengið yrði niðurstaða sjálfstæðismanna sú, að taka undir bókun Svandísar á eigendafundinum. Taka þyrfti afstöðu til þess hvort þetta væri heppileg leið, og lagði Dagur til að tillögunni yrði vísað til borgarráðs. Takast þurfi bandalag um frið, fumleysi og ábyrgð í hverju skrefi.

mbl.is

Bloggað um fréttina