Osama bin Laden „hatar Björk“

Osama bin Laden hatar Björk, og er meinilla við íslensku hverina, sagði Jason Jones, „fréttaritari“ bandaríska grínfréttaþáttarins „The Daily Show,“ sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Comedy Central, er hann hélt blaðamannafund á Hilton-hótelinu í Reykjavík í morgun.

Útsendarar „The Daily Show“ eru staddir hér á landi við efnisöflun í tilefni af brottkvaðningu íslenska „hersins“ frá Írak, en sem kunnugt er ákvað utanríkisráðherra nýverið að þátttöku Íslands í þjálfunarverkefni NATO í Írak yrði hætt, og var íslenski friðargæsluliðinn, Herdís Sigurgrímsdóttir, kvödd heim.

Jones kvaðst á fréttamannafundinum í morgun hafa rætt við ýmsa aðila á Íslandi, þ. á m. Herdísi, Magnús Ver Magnússon og Stefán Pálsson, formann Samtaka hernaðarandstæðinga.

Efnið sem Jones og félagar hafa unnið hérlendis undanfarna daga verður væntanlega sýnt í „The Daily Show“ eftir um hálfan mánuð. CNN International sendir vikulega út samantekt úr þættinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert