Bernskir borgarfulltrúar

"Seta í tímabundinni stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er mikilvægt og virðingarvert verkefni," segir Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, iðnaðarráðherra og seðlabankastjóri. Hann hefur tekið sæti í stjórn OR undir forystu Bryndísar Hlöðversdóttur, aðstoðarrektors á Bifröst og fyrrum þingmanns Samfylkingar. Jón segir stjórnina ekki koma pólitík eða fyrrum formanni Framsóknar við.

"Þetta er viðskiptalegt stjórnunarverkefni. Það var sjálfsagt og skylda mín að taka sæti í stjórn OR, þegar eftir því var leitað. Ég á ekki von á því að það verði nein læti í kringum reglulega starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Við tryggjum rekstur og starfrækslu meðan menn á vettvangi stjórnmálanna fjalla um stefnumál fyrirtækisins," segir Jón. Hann segir kjörna fulltrúa ráða því hvort stjórn OR verði á einhvern hátt fengin til ráðgjafar um þá stefnumótun. "Ég hef áður starfað í stjórnum og fyrirtækjum og veit ekki annað en að Orkuveita Reykjavíkur sé stöndugt, sterkt fyrirtæki undir góðri stjórn hæfra stjórnenda. Ég lít á verkefnið sem stjórnunarlegt og viðskiptalegt." Jón Sigurðsson segir ásakanir um að Björn Ingi Hrafnsson, fulltrúi Framsóknar í stjórn OR, hafi fært fjárfestum tengdum flokkunum milljarða fráleitar. Gísli Marteinn Baldursson sagði þetta í borgarstjórn í fyrradag og fleiri sjálfstæðismenn hafa sakað Björn um að ganga erinda tiltekinna auðmanna. "Þetta eru fráleitar ásakanir. Það er hreint lögbrot ef menn mismuna hluthöfum umfram það sem segir í samþykktum hlutafélags. Mér er ekki kunnugt um að sérstakt hluthafasamkomulag sé til. Ef slík ákvæði eru ekki til hefur þú enga ástæðu til að flokka eigendur á þennan hátt," segir Jón.

"Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa látið tilfinningar og skapsmuni hlaupa með sig í gönur," segir Jón Sigurðsson og skrifar atburðarás og yfirlýsingar síðustu daga á reikning fljótfærni og reynsluleysis þeirra borgarfulltrúa sem í hlut eiga. "Þetta er bernskt, vanþroskað upphlaup og vandræðalegt orðagjálfur. Þeir eru í uppnámi og verður áreiðanlega fyrirgefið það. Auðvitað á að gefa borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins tíma til að ná jafnvægi á ný. Þetta er gott fólk sem líður illa. Við vorkennum því."

mbl.is

Bloggað um fréttina