Rekstur Keflavíkurflugvallar færður til samgönguráðuneytisins um áramót

Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar mbl.is

Stjórnvöld vinna nú að því að færa rekstur Keflavíkurflugvallar frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis í árslok og fyrirhugað er að sameina Flugmálastjórnina á Keflavíkurflugvelli og Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. í eitt opinbert félag.

Í tilkynningu kemur fram að eitt ár er liðið frá því að Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli tók við öllum rekstri flugvallarins við brottför varnarliðsins. Stjórnvöld hafa á þeim tíma endurskilgreint varnar- og flugvallarsvæðið, staðið fyrir umfangsmikilli varnaræfingu á flugvellinum og lagt grunn að reglubundnum heimsóknum herflugvéla til varnarstarfa.

„Færsla á verkefnum frá varnarliðinu til Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli tókst í alla staði mjög vel. Umsvif flugmálastjórnarinnar jukust stórlega en starfsmannafjöldi nærri þrefaldaðist á einni nóttu. Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli annast rekstur flugvallarins og flugleiðsöguþjónustu og fer með stjórnsýsluvald á flugvellinum, skipulagsmál, framkvæmdir og þjónustu á sveitarstjórnarstigi og gefur út starfsleyfi fyrir flugtengda starfsemi.

Rekstur Keflavíkurflugvallar er í örum vexti. Flugumferð eykst ár frá ári og var liðið ár metár og farþegafjöldi fór í fyrsta sinn yfir tvær milljónir. Farþegafjöldi hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum og flugrekstrar- og þjónustuaðilar spá sambærilegri aukningu á komandi árum. Þá bætast nýir flugrekstraraðilar í hóp þeirra sem gera út flugvélar eða kjósa að hafa viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Lendingum í almennu gjaldskyldu flugi fjölgaði um rúm níu prósent á síðasta ári. Heildarvelta Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli á þessu fyrsta ári sem heildarrekstur vallarins er á hennar hendi er áætluð tæplega 2,7 milljarðar króna," samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert