Valgerður: Staða Sjálfstæðisflokksins með eindæmum veik

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir. mbl.is/Ómar

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrum utanríkisráðherra, segir á pistli á heimasíðu sinni, að staða Sjálfstæðisflokksins sé með eindæmum veik um þessar mundir og spilaborgir kunni að hrynja víðar en í borgarstjórn Reykjavíkur. Talar Valgerður m.a. um að „valdarán" annars armsins í flokknum í Reykjavík hafi mistekist.

„Flokkurinn hefur vissulega hrakist úr meirihlutasamstarfi í Reykjavík vegna innbyrðis sundurþykkju en á landsvísu gæti orðið stutt í sömu málalok ef fram fer sem horfir. Með ríkisstjórnarmyndun sjálfstæðismanna með Samfylkingu sl. vor var pólitískt líf Ingibjargar Sólrúnar nefnilega ekki aðeins endurvakið. Með þeirri atburðarás sem þá átti sér stað var líka gengið þannig til verks að samstarf Sjálfstæðisflokks við Framsóknarflokk og Vinstri græna gæti orðið erfitt á næstu árum," segir Valgerður.

Hún segir, að guðfeðgin nýrrar ríkisstjórnar kynnu því að verða dregin fyrir nýjan rannsóknarrétt ef upp úr samstarfi við Samfylkinguna slitnaði. Geir Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir séu búin að tefla sig í mjög erfiða stöðu sem gæti endað með heimaskítsmáti. Í samanburði við valdatíð Davíðs Oddssonar og Kjartans Gunnarssonar kæmi slík útkoma ekki vel út.

„Það verður því fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna við heimatilbúnum ágreiningsmálum og skeytasendingum Samfylkingarinnar, s.s. frestun vatnalaga, frumvarpi um skipun hæstaréttardómara, hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar sem auðveldi þátttöku í yfirþjóðlegu samstarfi eins og innan Evrópusambandsins, o.s.frv. Hversu lengi kyngir Sjálfstæðisflokkurinn slíkum sendingum og hver er leiðin út? Einhver kynni að telja að þetta væri brýnasta viðfangsefnið í Valhöll um þessar mundir en vandamálin eru vissulega mörg og ekki allra að greiða úr þeim," segir Valgerður m.a.

Heimasíða Valgerðar

mbl.is

Bloggað um fréttina