Íslenskum skipum heimilað að veiða rúm 202 þúsund tonn af kolmunna

Kolmunni.
Kolmunni. mbl.is

Á fundi strandríkja um stjórnun kolmunnaveiða, sem lauk í Lundúnum í gær, náðist samkomulag um að heildaraflamark verði 1.250.000 tonn árið 2008. Samkvæmt samkomulaginu verður íslenskum skipum heimilað að veiða 202.836 tonn.

Á vef sjávarútvegsráðuneytisins kemur fram að samningur um stjórn kolmunnaveiða var gerður síðla árs árið 2005 og kom böndum á þær stjórnlausu ofveiðar sem höfðu viðgengist árin þar á undan.

Við gerð samningsins árið 2005 reyndist nauðsynlegt til að ná samkomulagi að ákvarða heildaraflamark sem var of hátt til lengri tíma litið.

Lækkun heildaraflamarks næstu árin var hluti af því samkomulagi og í því sambandi var á strandríkjafundinum árið 2006 ákveðið að draga úr veiðum sem nemur 300.000 tonnum fyrir árið 2007. Markmiðið er að veiðar séu í samræmi við veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) innan fárra ára.

„Niðurstaða strandríkjanna núna felur í sér að dregið verði úr veiðum milli ára um alls 597.000 tonn, eða 32.32%. Eru þau sammála um að þetta sé stórt skref í átt til þess að gera veiðarnar sjálfbærar til lengri tíma," samkvæmt vef sjávarútvegsráðuneytisins.

Í sendinefnd Íslands á strandríkjafundinum voru Stefán Ásmundsson, formaður og Steinar Ingi Matthíasson frá sjávarútvegsráðuneytinu auk Kristjáns Þórarinssonar frá LÍÚ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert