Steinunn Ólína: Fólk orðið þreytt á að hafast við fjarri heimilum

mbl.is/Steinunn Ólína

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Stefán Karl Stefánsson, sem búsett eru í San Diego fóru í gær og heimsóttu Qualcomm leikvanginn og brunasvæði í San Diego sýslu. Steinunn Ólína segir það hafa verið afar áhrifamikið að sjá eyðilegginguna.

Stefán Karl segir að vinda hafi lægt og að meiri raki sé kominn í loftið, auk þess sem hitinn hafi minnkað. „Nú eru þeir vissir um að þeir geti farið af öllum krafti að slökkva þetta, en það getur tekið allt fram að mánaðarmótum nóvembers og desembers að ljúka því”.

Yfirvöld í Kaliforníu telja víst að um íkveikjur sé að ræða í einhverjum tilvika. Tæplega 1800 ferkílómetrar lands hafa orðið eldinum að bráð frá Santa Barbara og að mexíkósku landamærunum.

Steinunn Ólína segir að á Qualcomm leikvanginum sé skipulagið gott, allir hafi nóg að bíta og brenna, spítala hafi verið komið fyrir á einni hæð og sjálfboðaliðar og skemmtikraftar hafi ofan af fyrir börnum. Hún segir þó greinilegt að fólk, einkum börn, sé orðið þreytt á því að hafast við á leikvanginum.

Þá segir hún að þótt sagt hafi verið frá því í fréttum að fólk af öllum þjóðfélagsstéttum hafist við á leikvanginum þá sé það ekki alveg rétt því fólk sem ekki hefur í önnur hús að venda og ekki hefur efni á að leigja hótelherbergi sé í meirihluta. Steinunn segir líka að það eigi eftir að koma í ljós hvernig komið verði til móts við ólöglega innflytjendur sem misst hafi heimili sín og aleigu.

Í gær heimsótti Steinunn Ólína svo Rancho Bernardo í San Diego sýslu og skoðaði ásamt öðru fjölmiðlafólki hús sem brunnið höfðu í eldunum.

„Þarna voru hús við hús þar sem allt var brunnið til kaldra kola, þarna stóðu leifar af garðhúsgögnum, garðhúsgögn, þvottavélar og þurrkara og bílar í innkeyrslum. Það sem mér fannst kannski svakalegast var gróðurinn, sem var brunninn og sviðinn, og eins og hann væri á flótta undan eldinum, tréin sveigð og kolsvört. Þetta var bara hræðilega sorglegt„

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert