Vilja að ný Vestmannaeyjaferja beri 55 bíla og 350 farþega

Líkan Siglingamálastofnunar af ferjuhöfn í Bakkafjöru.
Líkan Siglingamálastofnunar af ferjuhöfn í Bakkafjöru. mbl.is/Ásdís

Í minnisblaði, sem bæjarráð Vestmannaeyja hefur samþykkt um fyrirhugað útboð á hönnun, smíði og rekstri ferju milli Bakka og Vestmannaeyja, eru m.a. gerðar kröfur um að skipið beri 55 bíla og 350 farþega, ferðatíðnin verði ekki minni en 6 ferðir á sólarhring yfir vetrartímann og 8 á sólarhring yfir sumartímann og fargjald verði að hámarki 500 krónur.

Minnisblaðið var samþykkt á aukafundi bæjarráðs í gærkvöldi. Þar er einnig varað við því að samið sé við einn aðili um rekstur í 15 ár og farið fram á að ekki verði samið til lengri tíma en 5 ára og í 1-2 ár til að byrja með á meðan reynsla er að komast á þessar nýju samgöngur. Gengið er út frá því að hafnarmannvirki og önnur mannvirki í Bakkafjöru verði í rekstri eigenda hafnarinnar, þ.e.a.s. sveitarfélaganna Vestmannaeyjabæjar (60%) og Rangárþings Eystra (40%).

Elliði Vignisson segir í samtali við vefmiðilinn Eyjar.net, að minnisblaðið er unnið fyrir bæjarráð í samráði við sérfróða aðila, svo sem skipstjórnendur á Herjólfi, reynda skipstjóra og sjómenn í Vestmannaeyjum, stjórnendur Vestmannaeyjahafnar og fleiri. Tilgangurinn sé að varpa ljósi á sjónarmið heimamanna, sem hafi áratuga reynslu af notkun og þjónustu ferjusiglinga.

„Í ljósi þeirra mistaka sem gerð voru við endurbætur á ferju til siglinga til Grímseyjar teljum við verulega áríðandi að vilji okkar, kröfur og óskir komi skýrt fram. Siglingar í Bakkafjöru eru nýjar samgöngur og að mörgu að hyggja. Við getum ekki ætlast til þess að fólk sem ekki er vant því að búa við ferjusiglingar hafi sömu innsýn í þessi mál og við og því mikilvægt að við komum þessu til skila," segir Elliði.

Eyjar.net

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert