Birgir Andrésson myndlistarmaður látinn

Birgir Andrésson.
Birgir Andrésson. mbl.is/Jim Smart

Birgir Andrésson, myndlistarmaður, andaðist í Reykjavík í gær, 52 ára að aldri.

Birgir var fæddur í Vestmannaeyjum 6. febrúar 1955 sonur hjónanna Andrésar Gestssonar frá Pálshúsum á Stokkseyri og Sigríðar Jónsdóttur frá Vestmannaeyjum. Móðir Birgis lést 1958 og fluttust þeir feðgar þá upp á land og inn á Blindraheimilið við Hamrahlíð 17 en Andrés var blindur. Andrés kvæntist blindri konu Elísabetu Kristinsdóttur og tók hún Birgi að sér.

Birgir nam myndlist við Myndlista- og handíðaskólann 1973 til 1977. Hann kvaddi sér þó fyrst hljóðs í íslenskum myndlistarheimi áður en hann hann lauk náminu en hann hélt sýningu í Gallerí SÚM í leyfisleysi ásamt kennara sínum Magnúsi Pálssyni árið 1976. Birgir fór síðan til framhaldsnáms í myndlist við Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi 1978 til 1979.

Eftir heimkomuna starfaði Birgir við umbrot blaða og bóka meðfram myndlistinni en frá síðari hluta níunda áratugarins vann hann eingöngu að myndlist sinni. Birgir hélt tugi einkasýninga og tók þátt í fjölda samsýninga, bæði hérlendis sem erlendis. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1995. Fyrir tæpum tveimur vikum opnaði hann sýningu í Safni ásamt Rögnu Róbertsdóttur sem stendur enn og í haust var hann tilnefndur til Íslensku sjónlistaverðlaunanna fyrir yfirlitssýningu á verkum sínum í Listasafni Íslands á síðasta ári. Birgir lætur eftir sig unnustu, Helgu Magnúsdóttur, föður sinn, son, Arnald Frey, og sonarson, Ingólf Breka.

mbl.is