Grænn heilsubótardrykkur byggður upp eins og blóð

Undanfarin 10 ár hefur gróðrarstöðin Lambhagi ræktað hveitigrös sem er sagt vera næringarríkt og orkugefandi fæðubótaefni og allra meina bót. Úr lífrænt ræktuðu hveitigrasi er pressaður safi sem er drukkinn sem heilsudrykkur, sem er sagður hafa svipaða uppbyggingu og blóð.

Eigandi Lambhaga, Hafberg Þórisson, segir hveitigrasið ávallt hafa fylgt mannkyninu, t.d. hafi það verið lækningarjurt hjá Kínverjum og Egyptum til forna. Hann bendir hinsvegar á að það hafi ekki verið fyrr en árið 1940 að menn hófu að skrifa um hveitigrös. Í framhaldinu hafi læknar byrjað að gera rannsóknir á virkni blaðgrænu og í dag drekki menn safann úr hveitigrasi um allan heim.

Hafberg segir safann úr hveitigrasinu hafa svipaða uppbyggingu og blóð. Af þeim sökum auki drykkurinn súrefnisupptöku í blóðinu sem og að sjálft blóðflæðið eykst.

Hann telur að á bilinu fimm til sjö þúsund manns drekki safann úr hveitigrösum að staðaldri.

mbl.is