Nýjar nefndir fjalla um málefni heilbrigðisstofnana

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur skipað fjórar nýjar nefndir sem falið hefur verið að sinna stefnumótun og eftirliti með heilbrigðisstofnunum og veita ráðherra ráðgjöf um málefni þeirra, auk þess sem ein nefndin mun fjalla um nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana.                                                                                               

Samkvæmt nýjum lögum um heilbrigðisþjónustu hefur ráðherra skipað níu manna ráðgjafanefnd Landspítala. Tilgangurinn er að efla tengsl Landspítala við þjóðfélagið og möguleika notenda þjónustunnar til að hafa áhrif á starfsemi og þjónustu spítalans.

Nefndinni er samkvæmt lögunum ætlað að vera forstjóra spítalans og framkvæmdastjórn hans til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans.   Ráðgjafarhlutverk nefndarinnar snýr fyrst og fremst að stjórnendum Landspítala og er verksvið hennar afmarkað í samræmi við það.  

Nefndina skipa:

Ingibjörg Pálmadóttir, formaður, fyrrverandi heilbrigðisráðherra
Anna Þrúður Þorkelsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður
Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri
Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins
Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Félags krabbameinssjúkra barna
Valgerður Gunnarsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisupplýsinga, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Vigfús Bjarnason, sjúkrahúsprestur Landspítala
Þórólfur Þórlindsson, forstjóri Lýðheilsustöðvar
Sigurrós Kristinsdóttir, 1. varaformaður Eflingar.

Þá hefur Guðlaugur Þór skipað sjö manna nefnd sem mun vera ráðherra til ráðgjafar um framtíðarstefnumótun spítalans auk þess að efla og styrkja eftirlit ráðherra með rekstri og þjónustu spítalans. Meðal þess sem nefndinni er ætlað er að skilgreina hlutverk Landspítala og gera tillögur um hvernig greina megi að kjarnastarfsemi hans og önnur verkefni, framkvæma athugun á stjórnskipulagi Landspítala og gera úttekt á rekstri hans.

Nefndina skipa:

Vilhjálmur Egilsson, formaður, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins
Guðjón Magnússon, framkvæmdastjóri hjá WHO
Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
Inga Dóra Sigfúsdóttir, deildarforseti kennslufræði og lýðheilsudeildar HR
Linda Bentsdóttir,   lögfræðingur hjá Invest
Margrét S. Björnsdóttir, forstöðumaður stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála hjá HÍ.

Heilbrigðisráðherra hefur skipað fimm manna nefnd er mun sinna sambærilegu hlutverki um stefnumótun, eftirlit og ráðgjöf til ráðherra, fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri. Formaður þeirrar nefndar er Andri Teitsson, verkfræðingur.

Loks hefur Guðlaugur Þór skipað sjö manna nefnd sem mun sinna því hlutverki að efla og styrkja eftirlit með uppbyggingu fasteigna heilbrigðisstofnana og aðstöðu þeirra og rekstri fasteigna Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.

Nefndin skal vinna tillögur að framtíðarskipulagi fasteigna og annarrar aðstöðu innan heilbrigðiskerfisins í kjölfar þarfagreiningar og leggja fyrir ráðherra eins fljótt og unnt er. Nefndin mun hafa yfirumsjón með undirbúningi, hönnun og byggingu nýrrar sjúkrahúsbyggingar fyrir Landspítala og skal í því sambandi leitast við að tryggja góða samvinnu m.a. við samtök sjúklinga og aðstandenda og Háskóla Íslands. Nefndin skal þegar í stað gera úttekt á núverandi stöðu verkefnisins og vinna áætlun um áfangaskiptingu og fjármögnun framkvæmda.

Nefndarmenn eru:

Inga Jóna Þórðardóttir, formaður
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður
Bolli Héðinsson, hagfræðingur
Bolli Kristinsson, fjárfestir
Hanna Katrín Friðriksson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Deloitte á Íslandi
Þórir Kjartansson, framkvæmdastjóri.

mbl.is