Farþegaflugvél rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli

Frá Keflavíkurflugvelli í nótt
Frá Keflavíkurflugvelli í nótt vf.is/Páll Ketilsson

Engan sakaði þegar farþegaflugvél, sem var að flytja farþega heim frá Tyrklandi, rann út af flugbraut á Keflavíkurflugvelli eftir lendingu um klukkan 2 í nótt. Verið var að aka flugvélinni inn á hliðarbraut eftir að hún lenti þegar vélin rann til, væntanlega vegna hálku og fór út af brautinni. Við það fór dekkið af nefhjólinu og flugvélin sat föst.

Samkvæmt upplýsingum frá flugumsjón á Keflavíkurflugvelli var farþegunum í vélinni ekið að flugstöðvarbyggingunni í rútum. Farangurinn er hins vegar enn í flugvélinni og verður ekki sóttur fyrr en búið er að losa vélina. Starfsmenn Flugslysanefndar eru á leið til Keflavíkurflugvallar til að rannsaka orsakir þessa óhapps.

Flugvélin er af gerðinni Boeing 737-800 frá leigufluginu Astraeus sem var að fljúga fyrir JetX og var að koma frá Antalya í Tyrklandi á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu. 188 farþegar voru um borð í vélinni og 10 manna áhöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina