Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar

Tengdadóttir og sonur Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, hafa stefnt útvarpsstjóra og Kastljósi og krefjast 3.5 milljónar króna í bætur fyrir ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs þeirra.

Fram kom í Sjónvarpinu, að í stefnunni segi að í umfjöllun Ríkisútvarpsins hafi verið látið að því liggja að umsókn Luciu Sierra hafi fengið sérmeðferð hjá Alþingi vegna tengsla hennar við ráðherrann.

Sú umfjöllun hafi verið sérstaklega meiðandi fyrir hana og unnusta hennar. Með umfjöllun sinni hafi RÚV dregið þau með ólögmætum og ómálefnalegum hætti inn í pólitískar ofsóknir á hendur Jónínu. Þá telja þau að Kastljós hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra með því að birta umsókn Luciu um ríkisborgararétt. Hún hafi verið trúnaðarskjal um einkamálefni sem Kastljós hafi komist yfir með brögðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert