Fallist á tilmæli talsmanns neytenda um samræmi hillu- og kassaverðs

Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa fallist á tilmæli talsmanns neytenda um að neytendur fái vörustrimil um leið og greiðslukvittun til að tryggja samræmi milli kassaverðs og hilluverðs. Eru þetta fyrstu viðbrögð talsmanns neytenda við fréttum undanfarna daga um misræmi og misfellur í matvöruverslunum, að því er segir á vef talsmanns neytenda.

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur sent SVÞ - Samtökum verslunar og þjónustu - tilmæli sem beinast að smásöluverslunum, innan samtakanna sem utan. Er tilmælunum ætlað að auðvelda neytendum að kanna strax hvort rétt verð sé greitt fyrir vöru eða þjónustu - áður en skrifað er undir eða tekið við greiðslukvittun. Með tilmælunum er að stuðlað að samræmi milli kassaverðs og hilluverðs en hilluverð er að jafnaði bindandi og gildir ef það er lægra en kassaverð.

SVÞ hafa fallist á tilmælin fyrir sitt leyti og fallist á að kynna þau og hvetja verslanir til að fara að þeim framvegis.

Í tilmælum talsmanns neytenda er kveðið á um: „að neytendur fái framvegis í hendur strimil yfir það, sem keypt hefur verið, um leið og greiðslukvittun er afhent.“

Vefur talsmanns neytenda

mbl.is

Bloggað um fréttina