Alcan stendur til boða raforka til að gera skipulagsbreytingar

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að honum væri tjáð að Alcan í Straumsvík stæði til boða, að að kaupa nokkuð magn af raforku til að gera skipulagsbreytingar á sinni starfsemi. Geir sagði hins vegar ljóst, að ákvörðun Landsvirkjunar frá því á föstudag þýddi að ekki verði reist nýtt álver í Þorlákshöfn eða annarstaðar á suðvesturhorninu.

Rætt var um stóriðju í upphafi þingfundar á Alþingi í dag að ósk Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG. Sagði hann að yfirlýsingar ráðherra um helgina og í dag um málið hefðu verið misvísandi. Geir H. Haarde hefði sagt í Útvarpinu í morgun, að ekki væri um að ræða stefnubreytingu en bloggarinn Össur Skarphéðinsson segði að um væri að ræða merkilega stefnubreytingu.

Steingrímur sagði að ekki væri heldur allt sem sýndist í yfirlýsingum Landsvirkjunar ef orkusala til netþjónabús væri notuð sem réttlæting fyrir öllum virkjununum í neðrihluta Þjórsár. Sagði Steingrímur, að minnsta virkjunin af þremur í neðri hluta Þjórsár dygði fyrir orkusölu til þessa bús og einnig til kísilhreinsunar.

Geir sagði, að stefna Landsvirkjunar byggðist á því, að hámarka verðið sem fæst fyrir orkuna og dreifa jafnframt áhættunni með því að auka fjölbreytni viðskiptavinanna. Sagði Geir að fjöldi fyrirtækja leitaði eftir orkunni, sem væri ný staða í 40 ára sögu Landsvirkjunar. Geir tók fram, að ákvörðun Landsvirkjunar hefði ekki áhrif á hugsanlegt álver á Bakka við Húsavík.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði að ákvörðun Landsvirkjunar markaði ákveðin skil í atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Hún hefði því pólitísk áhrif í atvinnuuppbyggingu en sé tekin af stjórn Landsvirkjunar í viðskiptalegum tilgangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert