150 íbúðir bætast við fyrir námsmenn á Vallarheiði

Íbúðir á varnarsvæðinu
Íbúðir á varnarsvæðinu

Keilir, miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs, hefur fengið allt að 150 íbúðir til úthlutunar fyrir námsmenn á háskólasvæðinu á Vallarheiði í Reykjanesbæ. Þessar íbúðir bætast við þær 350 sem þegar er búið í á svæðinu. Áætlað er að taka íbúðirnar í notkun í desember og janúar næstkomandi.

Heildarfjöldi íbúa á háskólasvæðinu mun þá aukast úr tæplega 800 í 1100-1200 manns, samkvæmt fréttatilkynningu.

Fjöldi iðnaðarmanna vinnur nú á vegum ÍAV þjónustu við endurbætur íbúðanna en jafnframt er unnið að stækkun á leikskóla Hjallastefnunnar þannig að hægt verði að fjölga þar börnum um áramót. Þegar stunda rúmlega 70 börn nám í leikskólanum og tæplega 50 í grunnskólanum.

Samkaup opnuðu nýlega verslun og á næstunni mun íþróttamiðstöð taka til starfa en um þá starfssemi hafa Keilir, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Reykjanesbær stofnað sérstakt hlutafélag, Íþróttavelli ehf. Þá er unnið að því að opna kaffi- og veitingahús á Vallarheiði.

Íbúðirnar eru bæði einstaklings- og fjölskylduíbúðir, 55-160 fermetrar að stærð. Þær eru ætlaðar nemum sem stunda nám við háskóla á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar.

Upplýsingar um íbúðirnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert