Samkeppniseftirlitið gerir húsleit hjá Bónus og Krónunni

Starfsmenn Samkeppniseftirlitsins komu um klukkan 9:30 á skrifstofu Bónus með húsleitarheimild frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá hefur Samkeppniseftirlitið einnig gert húsleit á skrifstofu Krónunnar, en það staðfesti rekstrarstjóri Krónunnar í samtali við mbl.is. Fram kemur í tilkynningu frá Bónus, að leitin sé gerð í tengslum við þá umræðu sem hafi átt sér stað s.l tvær vikur og falið í sér alvarlegar ásakanir í garð fyrirtækisins. Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, sagði í samtali við mbl.is í morgun að þar á bæ hafi menn ekkert að fela og húsleitinni sé fagnað.

„Bónus fagnar því að Samkeppniseftirlitið hafi hafið rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum um verðsamráð sem hafa komið fram. Er það í samræmi við þá ósk sem Hagar hf., rekstraraðili Bónuss, settu fram í bréfi til Samkeppniseftirlitsins dagsett hinn 1. nóvember s.l.

Bónus fullvissar viðskiptavini sína um að þessi leit muni hrekja þær dylgjur um samráð sem hafa átt sér stað á liðnum vikum og hafa einkum átt rætur sínar að rekja til rakalauss fréttaflutnings ríkisfjölmiðlanna. Bónus mun áfram standa við það loforð sem stofnendur fyrirtækisins gáfu viðskiptavinum sínum í upphafi að Bónus bjóði ávallt lægsta vöruverð á matvöru hér á landi," segir í tilkynningu Bónuss.

mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert