Sagði skilið við fjármálahverfið og hóf framleiðslu á skyri í New York

Sigurður Hilmarsson með framleiðsluna.
Sigurður Hilmarsson með framleiðsluna.

Það kann að koma sumum á óvart, en það var ekki stór ákvörðun fyrir ungan hagfræðing í fjármálahverfinu hjá Wall Street, Sigurð Hilmarsson, að venda kvæði sínu í kross, byrja að flóa skyr og framleiða það ofan í New York-búa.

En þannig var það. Og ekki aðeins vegna þess að eldamennska er áhugamál Sigurðar. Ástæðan var líka sú að hann hafði hann fengið inni með vöru sína í einni helstu sælkeraversluninni á Manhattan, og þótt víðar væri leitað, Murray's Cheese, og það áður en hann hóf framleiðslu fyrir alvöru.

Síðan hefur smám saman komist bragur á starfsemi fyrirtækisins, sem hann nefnir „The Icelandic Milk and Skyr Corporation“. Og frá því segir á matarblogginu Epicurious að „siggi's skyr“ hafi alltaf selst upp í verslunum þar sem það hefur verið á boðstólum. Framboðið á eftir að aukast enn frekar með verksmiðju sem tekin var í notkun í sumar.

Nú selja tuttugu sælkerabúðir í New York „siggi's skyr“, þar af fimm í Brooklyn. „Það var mikill sigur þegar Dean & Deluca bættist á listann í september, enda afar kunn meðal matgæðinga,“ segir Sigurður.

Stefna fyrirtækisins er að styrkja stöðu sína á Austurströndinni með vöruframboði í fleiri verslunum, án þess þó að gefa eftir í gæðum. „Verslanirnar sem hafa valið okkar vöru eru besta kynningin, enda kunnar sælkeraverslanir. Nú erum við komin með dreifingaraðila sem dreifir í New Jersey, New York og Connecticut, og það opnar okkur ýmsar dyr.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert