Gert ráð fyrir 2 milljarða hagnaði á borgarsjóði

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kynnti í dag frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008 en þar kemur fram að rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir tæplega tveggja milljarða króna hagnaði á árinu 2008 eftir fjármagnsliði. Frumvarpið var tekið til umræðu á fundi borgarstjórnar í dag.

Áætlað er að útsvarstekjur borgarinnar á næsta ári muni nema rúmum 42 milljörðum króna, en til samanburðar er reiknað með að útsvarstekjur á þessu ári verði 39,3 milljarðar króna.

Tekjur af fasteignaskatti og lóðarleigu eru áætlaðar um 11,2 milljarðar króna. Samantekið eru skatttekjur borgarinnar áætlaðar 50,7 milljarðar króna aðfrádreginni greiðslu í Jöfnunarsjóð.

Samanlagðar skatttekjur og þjónustutekjur eru áætlaðar rétt tæpir 58 milljarðar á árinu 2008, sem er um 9% hækkun frá útkomuspá fyrir þetta ár. Þá koma að auki, inn í Aðalsjóð, tekjur vegna fjármagnsliða upp á tæpa 5.9 milljarða.

Milljarður í uppbyggingu opinna svæða

Fram kemur að einn milljarður fari í uppbyggingu opinna svæða og útivistaraðstöðu í öllum hverfum borgarinnar í samvinnu við stórefld hverfaráð og íbúa hverfanna. Þá er stefnt að markvissum aðgerðum í húsnæðismálum, áframhaldandi áhersla er lögð á mannauð og framsækna starfsmannastefnu.

Jafnframt er gert ráð fyrir endurgerð Lækjartorgs og Ingólfstorgs og flutningi gamalla húsa á staði í miðborginni þar sem þau munu sóma sér vel. Borgarstjóri segir að frumvarpið hafi skýr félagshyggjumarkmið að leiðarljósi, sem endurspeglist í mikilli áherslu á þjónustu við börn og eldri borgara.

Borgarstjóri segir rekstur Reykjavíkurborgar hvíla á traustum grunni, enda sé það ekkert launungarmál að fjármálastjórn borgarinnar hafi einkennst af ábyrgð, framsýni og festu um árabil. Fjárhagsáætlunin sé raunsæ um þróun rekstrarútgjalda, en varfærin varðandi horfur um tekjuþróun og endurspegli þannig þá ábyrgu meðferð skattfjár sem borgaryfirvöldum beri að stunda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert