Eiga langa fangelsisdóma að baki

Báðir mennirnir, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um að hafa nauðgað konu í Reykjavík fyrir tæpum hálfum mánuði, eiga að baki sakarferil í Litháen. Annar hefur afplánað árs fangelsisrefsingu fyrir þjófnað og 4 ára og 6 mánaða fangelsisrefsingu fyrir fjárkúgun. Hinn hefur m.a. afplánað 2 ára fangelsisrefsingu fyrir þjófnað og 4 ára fangelsisrefsingu fyrir rán.

Gæsluvarðhald yfir mönnunum hefur verið framlengt til 21. desember. Í úrskurðum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur m.a. fram, að á meðal þeirra gagna, sem aflað hafi verið í málinu, sé skýrsla frá neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota. Þar komi fram að konan, sem hafi verið í miklu uppnámi við komu, hafi verið með áverka á kynfærum og víða um líkamann. Talsverðir áverkar hafi verið á baki hennar sem komi heim og saman við það sem hún hafi sagt um að hún hafi verið þvinguð á bakið í mölina á meðan mennirnir brutu gegn henni. Buxur hennar hafi verið rennblautar og mikill sandur í bakfestingu á brjóstahaldara.

Þá hafi verið teknar skýrslur af vitnum en tvö þeirra voru starfsmenn á skemmtistað þar sem mennirnir tveir og konan voru stödd aðfaranótt 10. nóvember sl. Beri vitnunum saman um, að mennirnir hafi verið með dónaskap og yfirgang inni á staðnum. Myndskeið úr öryggismyndavélum staðarins sýni að mennirnir hafi farið út af staðnum kl. 3:12, nokkru áður en konan, sem fór þaðan ein kl. 3:29.

Annar maðurinn ber fyrir sig minnisleysi vegna ölvunar. Hinn maðurinn sagðist fyrst við yfirheyrslur hafa átt kynmök við konuna einn en bar síðan, að hún hafi samþykkt að hafa einnig mök við hinn manninn. Hann hafi síðar ítrekað þennan framburð. Segir í úrskurði héraðsdóms, að lýsing mannsins á því, sem eigi að hafa átt sér stað á vettvangi, sé með ólíkindablæ, ekki síst um að kynmökin hafi þau þrjú átt í húsasundi, í rigningu og að hluta til á harðri möl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert