Svifryk hátt yfir heilsuverndarmörkum

Svifryk í Reykjavík er nú yfir viðmiðunarmörkum.
Svifryk í Reykjavík er nú yfir viðmiðunarmörkum. mbl.is/RAX

Svifryk mælist nú hátt yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík. Umhverfissvið borgarinnar ráðleggur einstaklingum með viðkvæm öndunarfæri eða astma að halda sig fjarri fjölförnum umferðargötum.

Hálftímagildi svifryks hafa mælst hátt yfir heilsuverndarmörkum við Grensásveg núna í morgun. Sólarhringsmeðaltal var á hádegi 100 míkrógrömm í rúmmetra. Frá klukkan 10:30 til 11 var gildið 250 míkrógrömm en sólarhringsviðmiðunarmörkin eru 50. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fóru gildin yfir 50 míkrógrömm í morgun.

Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Mengunarvörnum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, segir að þetta ástand geti varað eitthvað áfram í dag en búist sé við að hiti og raki hækki síðdegis og það hafi áhrif til hins betra. Á morgun er spáð rigningu og því ólíklegt að svifryksgildið verði hátt.

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin. Borgarbúar geta fylgst með svifrykmælingum á veðursíðu mbl.is.

Veðursíða mbl.is

mbl.is