VG gagnrýnir frumvarp um þingsköp

Vinstri grænir gagnrýndu í dag þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpi um þingsköp. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, lagði fram frumvarpið í gær. Meðflutningsmenn eru þingflokksformenn allra flokka, nema Vinstri grænna.

Samkvæmt núgildandi lögum er ræðutími ótakmarkaður í annarri og þriðju umræðu um þingmál en í nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir að takmarka hann. Þingmenn munu hins vegar fá að taka eins oft til máls og þeir kjósa, fyrst í 15 mínútur en síðan í fimm mínútur í senn. Flutningsmenn og ráðherrar munu þó geta flutt lengri ræður og forseti Alþingis fær heimildir til að lengja ræðutíma í sérstökum málum

Ögmundur Jónasson, Vinstri grænum, sagði í umræðum á Alþingi í dag að þörf sé á að breyta þingskaparlögum en nú eru gerðar breytingar án aðkomu Vinstri grænna, stærsta stjórnarandstöðu flokksins. Að sögn Ögmundar er í flestum tilvikum um vönduð vinnubrögð að ræða á Alþingi og það sé einungis þegar rætt er um stór mál sem umræður dragast á langinn. Stór mál eins og EES samninginn og Vatnalögin. Segir Ögmundur að ekki sé um mörg mál að ræða en það séu ávalt mikil hitamál og að ekki eigi að versla með málfrelsi.

Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu, segir að stefnt sé að því með breytingunum að bæta þingstörf og auka aðhald með ríkisstjórninni . Segir að ekki sé verið að skerða málfrelsi heldur munurinn sá að nú megi tala oft í skemmri tíma í stað lengi í tvígang. Með þessu verið að bæta þingstörf.

Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sagði að með breytingunni sé ekki verið að skerða málfrelsi og sagði að ekki væri hægt að bjóða fólki upp á þau vinnubrögð sem hafi viðgengist á Alþingi. Segir hún það ósk framsóknarmanna að gera þingið fjölskylduvænna.

Steingrímur J. Sigfússon , Vinstri grænum, segir að breytingarnar veki furðu og undrun. Nú sé verið að reyna að koma í veg fyrir samræður og það veki furðu að Samfylkingin standi með þessum breytingum. Segir Steingrímur að Vinstri grænir séu ekki tilbúnir til þess að stjórnarandstaðan selji frá sér það eina vopn sem bítur. Málfrelsið sé ekki verslunarvara. Gagnrýndi Steingrímur aðkomu forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, að málinu og að það hafi verið sett á dagskrá þingsins í gærkvöldi.

Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum, segir að menn hafi haft nógan tíma til þess að skoða málið og gera breytingar. Segir hann að breytingarnar séu Alþingi til framdráttar og ekki sé vanþörf þar á. Kristinn segist vera ósammála ummælum um óvönduð vinnubrögð og gagnrýni á forseta Alþingis. Það sem komi honum á óvart séu óvönduð vinnubrögð VG í þessu máli.

Katrín Jakobsdóttir, Vinstri grænum, segist hafa viljað að það væri skipaður starfshópur um breytingar á þingskaparlögum. Segist hún ekki sjá að það að stytta ræðutíma skili betri árangri.

Helgi Hjörvar, Samfylkingu, segir langar og leiðinlegar ræður sem þingmenn flytji stundum sé ekki lýðræðinu til framdráttar. Þingmenn sem flytji slíkar ræður ættu að taka endurmenntunarnámskeið í ræðuhöldum. Segir hann að það nægi ekki Steingrími J. að standa í ræðustól heldur sé hann gjammandi utan úr sal.

Forseti Alþingis vakti athygli Helga Hjörvar á því að það fari betur á því að segja að það fari betur á því að tala um að þingmenn kalli úr þingsal í stað þess að tala um að þeir gjammi.

mbl.is

Bloggað um fréttina