Söluandvirði eigna á Keflavíkurflugvelli 18 milljarðar

Byggingar á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.
Byggingar á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll. mbl.is/Eyþór

Heildarsöluverð eigna ríkisins á fyrrum varnarsvæði við Keflavíkurflugvöll getur orðið allt að 18 milljarðar króna þegar umbreytingu svæðisins verður lokið á næstu 3-4 árum en kostnaður við lagfæringar eigna og hreinsun á svæðinu getur orðið um helmingur af því.

Þetta kemur fram í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjáraukalagafrumvarp fyrir yfirstandandi ár. Þar er gert  ráð fyrir að kostnaður í tengslum við sölu eigna á svæðinu  nemi 1170 milljónum á þessu ári og er aðallega um að ræða útgjöld í tengslum við lagfæringar og breytingar á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand.

Áætlað er að verðmæti seldra eigna á þessu ári nemi um 15,7 milljörðum króna   en samkvæmt samningum greiðist það á fjórum árum og er reiknað með að greiðslurnar á árinu 2007 verði 3,5 milljarðar kr. Fram kemur í nefndarálitinu, að ríkisendurskoðandi hafi staðfest við nefndina að þessar tekjur byggist á yfirferð embættisins á sölusamningum og að þeir séu að mati þess tryggir.  

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar annast um þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á svæðinu með það að markmiði að koma eignunum sem fyrst í hagfelld borgaraleg not. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, mun á morgun flytja Alþingi skýrslu um starfsemi félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert