Landsmenn 437.844 árið 2050?

Íslendingar verða 437 þúsund talsins árið 2050 gangi ný spá …
Íslendingar verða 437 þúsund talsins árið 2050 gangi ný spá eftir.

Samkvæmt nýrri spá um mannfjölda á Íslandi verða landsmenn 437.844 árið 2050 en íbúafjöldi var 307.672 við upphaf spátímabils hinn 1. janúar 2007. Árleg fólksfjölgun verður 0,8% á spátímabilinu sem er heldur minni fjölgun en var á 20. öld.

Að því er kemur fram á vef Hagstofunnar geta íslenskir karlar vænst þess við lok spátímabilsins að vera 84,6 ára en meðalævilengd kvenna verður 87,1 ár.

Vegna lengri meðalævi og lækkaðrar fæðingartíðni verða talsverðar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Öldruðum mun fjölga verulega á spátímabilinu einkum undir lok þess. Í dag tilheyra elstu þjóðfélagsþegnarnir óvenjufámennum fæðingarárgöngum sem fæddust á kreppuárunum.

Eftir 2030 þegar fjölmennir árgangar eftirstríðsáranna komast á eftirlaunaaldur mun hlutfall aldraðra hækka verulega. Árið 2050 verða 7,5% íbúa áttræðir eða eldri samanborið við 3,1% við upphaf spátímabils.

Þótt gert sé ráð fyrir því að barnsfæðingum fækki nokkuð á spátímabilinu verður fæðingartíðni áfram há í evrópsku samhengi. Íslenskar konur geta í dag vænst þess að eiga rúmlega 2 börn um ævina. Þetta hlutfall mun haldast óbreytt til 2015 en lækka síðan jafn og þétt í 1,85 við lok spátímabils.

Vegna fremur hárrar fæðingartíðni verða börn og ungmenni hlutfallslega fjölmenn hér á landi. Árið 2050 mun fjórðungur íbúa tilheyra aldurshópnum 0-19 ára en í dag er þetta hlutfall 28,8. Fólki af erlendum uppruna mun væntanlega fjölga í framtíðinni.

Hagstofa Íslands gerir r ekki sérstaka spá fyrir innflytjendur en vegna aukins aðflutnings fólks frá útlöndum verður hlutfall einstaklinga sem fæddir eru í útlöndum hærra en verið hefur.

Í spánni er gert ráð fyrir að tíðni flutningsjöfnuðar verði rúmlega 3 af hverjum 1.000 íbúum á komandi áratugum. Þetta er heldur lægri flutningsjöfnuður en í Noregi og Svíþjóð en hærri en í Danmörku og Finnlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert