Þróunarfélagið segir rannsókn Ríkisendurskoðunar mikilvæga

Fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.
Fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar segir mikilvægt, að Ríkisendurskoðun hafi tekið þá ákvörðun að ráðast í úttekt á starfsemi félagsins, eins og stjórnin hafi óskað eftir fyrr á þessu ári. Segist stjórnin vera þess fullviss, að rannsóknin leiði í ljós að farið hafi verið í einu og öllu að lögum.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar telur mikilvæga þá ákvörðun Ríkisendurskoðunar að ráðast í úttekt á starfsemi félagsins, eins og stjórn Þróunarfélagsins óskaði eftir fyrr á þessu ári. Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar er þess fullviss að úttekt Ríkisendurskoðunar leiði í ljós að við sölu fasteigna á Keflavíkurflugvelli hafi í öllu verið farið eftir lögum um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar. Ennfremur að unnið hafi verið samkvæmt þeim skilyrðum og fyrirmælum sem félaginu voru sett.

Tilgangurinn með stofnun Þróunarfélagsins var meðal annars að koma fasteignum í eigu ríkisins á Keflavíkurflugvelli sem fyrst í arðbær borgaraleg not með það að markmiði að jákvæð samfélagsleg áhrif verði sem mest og neikvæðum áhrifum á nærsamfélagið verði haldið í lágmarki.

Í þjónustusamningi Þróunarfélagsins við ríkið er kveðið á um markmið, umboð og heimildir Þróunarfélagsins. Frá stofnun félagsins, 24. október 2006, hefur félagið starfað faglega samkvæmt þjónustusamningnum.

Þróunarfélagið hefur frá upphafi kallað eftir áhugasömum aðilum með hugmyndir um nýtingu eigna á svæðinu, meðal annars með áberandi auglýsingum með vísun í upplýsandi vef félagsins, þar sem allar óseldar eignir ríkisins á svæðinu eru kynntar og söluskilmálar tíundaðir.

Stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar,

Magnús Gunnarsson,

Árni Sigfússon,

Stefán Þórarinsson.

mbl.is